Lopi

Saga prjóns

Prjón er aldagömul handverkshefð og þekkt um allan heim. Talið er að Íslendingar hafi lært að prjóna á 16. öld. Mörgum finnst það eflaust skrítið að landsmenn hafi ekki lært að prjóna löngu fyrr því prjón er frekar einfalt og mjög nytsamlegt. Hins vegar er vitað að prjónakunnátta barst aðeins nokkrum áratugum fyrr til Evrópu. Á Englandi er talið að fyrstu sokkarnir hafi verið prjónaðir um 1560 og að fyrirmyndin af þeim hafi komið frá Spáni.

 

Uppruni prjóns á Íslandi

Talið er að prjónakunnátta hafi borist til Íslands á 16.öld með enskum, þýskum eða hollenskum kaupmönnum sem sigldu reglulega hingað til lands. Líklegt þykir að þýskir kaupmenn hafi átt þar stærstan hluta að máli. Hér á landi náði prjón strax mikilli útbreiðslu og kann meginástæðan að vera sú að miklu fljótlegra var að framleiða ullarvarning með þessu nýja verklagi heldur en í kljásteinsvefstólum sem þá voru notaðir til að vefa vaðmál til fatagerðar. Samt sem áður voru kljásteinsvefstólar í notkun allt fram á 19. öld.

 

Afurðir

Prjón varð mikilvæg búbót á öllum heimilum og Íslendingar prjónuðu á sig margs konar flíkur. Afurðirnar fóru auðvitað eftir tískunni hverju sinni, rétt eins og nú, en meðal þess sem prjónað var til heimilisnota voru t.d. sokkar, belgvettlingar, fingravettlingar, treflar, peysur, buxur, skór, hettur, húfur og jafnvel axlabönd. Auk þess voru nærföt karla og kvenna prjónuð svo og sokkabönd kvenna. Einnig má nefna að tjöld til viðlegu og koddaver voru jafnvel prjónuð.

Fyrst og fremst var prjónað úr ullarbandi úr sauðalitunum, en þó var til litað band, einkum svart, dökkblátt, rautt, grænt og gult. Oftast voru prjónaðar flíkur þæfðar eftir á til að þær væru hlýrri og endingabetri auk þess sem þær héldu betur vatni í rigningu.

Karlar, konur og börn prjónuðu á þessum tíma og því var prjón ekki talin sérstök kvennavinna fyrr en löngu síðar. Reyndar var ætlast til þess að allt vinnufært fólk gæti prjónað og börnum var kennt að prjóna mjög ungum. Mikið var flutt út af prjónlesi sem var mikilvægur hluti heimilistekna, og áttu allir að skila af sér ákveðnu magni af prjónlesi á tilteknum tíma.

 

Útflutningur

Allt fram á 19. öld var útflutningur á prjónlesi mikill. Á tímum einokunarverslunar Dana, 1602 - 1787, voru viðskipti með prjónles mikil og klögumálin gengu einatt á víxl milli kaupmanna og landsmanna yfir of lágu verði og óvandaðri vinnu. Prjónles var einnig notað sem gjaldmiðill til dæmis til að greiða sýslugjöld og jarðarafgjöld. Þá notuðu landsmenn prjónles sem gjaldeyrir í skiptum t.d. fyrir tóbak og brennivín.

 

Heimild: Hólmfríður J. Ólafsdóttir á http://wiki.khi.is/index.php/Prjón

 

icelandic wool
Woolmark
www.istex.is / istex@istex.is / Sími 566 6300 / Fax 566 7330 / © 2010 lopi